Rashford útnefndur leikmaður mánaðarins í annað sinn

Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United, hefur verið útnefndur leikmaður janúarmánaðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Er þetta í annað sinn á tímabilinu sem hann er útnefndur leikmaður mánaðarins.

Þá nafnbót hlaut Rashford einnig í september síðastliðið haust. Er þetta í þriðja sinn á ferli hans sem Rashford er útnefndur leikmaður mánaðarins en fyrsta skiptið kom í janúar árið 2019.

Í janúar skoraði hann þrjú mörk í fjórum leikjum, gegn Bournemouth, Manchester City og Arsenal.

Hefur Rashford leikið afskaplega vel á tímabilinu þar sem hann hefur skorað níu mörk í 20 deildarleikjum og alls 18 mörk í 31 leik í öllum keppnum.

Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá mörkin hans þrjú í mánuðinum ásamt laglegum sprettum, en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samstarfi við Símann Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert