Sigur á toppliðinu í fyrsta leik Dyche

James Tarkowski fagnar sigurmarkinu.
James Tarkowski fagnar sigurmarkinu. AFP/Paul Ellis

Everton gerði sér lítið fyrir og vann 1:0-heimasigur á toppliði Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. James Tarkowski skoraði sigurmarkið á 60. mínútu með skalla eftir hornspyrnu.

Bláa liðið í Liverpool var að spila sinn fyrsta leik undir stjórn Sean Dyche, en hann tók við liðinu af Frank Lampard á dögunum. Virtist það gefa liðinu aukinn kraft, því heimamenn voru sterkari stóran hluta fyrri hálfleiks, án þess þó að skapa sér mikið af opnum færum.

Hinum megin var Arsenal ólíkt sér, skapaði lítið og réð illa við mikla pressu sem heimamenn settu á þann sem var með boltann. Staðan í leikhléi var hins vegar 0:0.

Dwight McNeil og Martin Ödegaard eigast við í dag.
Dwight McNeil og Martin Ödegaard eigast við í dag. AFP/Paul Ellis

Þannig var hún fram að 60. mínútu þegar áðurnefndur Tarkowski skoraði sigurmarkið. Hann spilaði einmitt fyrir Dyche hjá Burnley, eins og Dwight McNeil, sem lagði upp markið.

Arsenal reyndi hvað það gat til að svara, en illa gekk að skapa mjög góð færi gegn sterkri vörn og öruggum Jordan Pickford í markinu og því fór sem fór.

Þrátt fyrir úrslitin er Arsenal enn með fimm stiga forskot á Manchester City á toppi deildarinnar. Everton fór upp úr fallsæti með sigrinum og er nú í 17. sæti með 17 stig, stigi meira en Bournemouth og Wolves.

Everton 1:0 Arsenal opna loka
90. mín. Það verða sex mínútur í uppbótartíma. Nægur tími fyrir Arsenal til að jafna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert