Skiptar skoðanir um framtíð Greenwoods

Skiptar skoðanir eru um framtíð Masons Greenwoods hjá Manchester United.
Skiptar skoðanir eru um framtíð Masons Greenwoods hjá Manchester United. AFP

Skiptar skoðanir eru hjá starfsmönnum enska knattspyrnufélagsins Manchester United um hvort Mason Greenwood eigi að fá tækifæri til þess að spila aftur fyrir félagið.

Greenwood, sem er 21 árs gamall, var handtekinn í janúar á síðasta ári, grunaður um líkamsárás, nauðgun og líflátshótanir í garð fyrrverandi kærustu sinnar.

Hann var síðar ákærður í málinu en í síðustu viku var málið látið niður falla, meðal annars vegna þess að lykilvitni í málinu drógu framburð sinn til baka.

The Guardian greinir frá því að þó stór hluti af starfsfólki félagsins vilji ekki sjá Greenwood spila aftur fyrir félagið þá séu aðrir sem vilji ekki snúa baki við leikmanninum sem gekk til liðs við félagið þegar hann var sjö ára gamall.

Mál Greenwoods er nú í ferli innan félagsins og verður ákvörðun um framtíð hans tekin á næstu vikum en hann á að baki 129 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 35 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert