Sökin liggur hjá Klopp

Það hefur lítið gengið upp hjá Jürgen Klopp og lærisveinum …
Það hefur lítið gengið upp hjá Jürgen Klopp og lærisveinum hans í Liverpool á tímabilinu. AFP/Darren Staples

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, skaut föstum skotum að Jürgen Klopp stjóra liðsins eftir tapið gegn Wolves um helgina.

Carragher starfar sem sparkspekingur hjá Sky Sports í dag en alls lék hann 737 leiki fyrir félagið á árunum 1996 til 2013.

Varnarmaðurinn fyrrverandi var ósáttur við kaupstefnu félagsins og þá ákvörðun að kaupa ekki miðjumann síðasta sumar þegar Frakkinn Aurelien Tchouameni var nálægt því að ganga til liðs við enska félagið en hann fór að lokum til Real Madrid.

Peningarnir til staðar

„Það voru til peningar til þess að kaupa miðjumann því félagið reyndi að kaupa strákinn sem fór til Real Madrid,“ sagði Carragher.

„Þetta voru um það bil 60 til 70 milljónir punda sem var búið að eyrnamerkja fyrir miðjumann. Félaginu mistókst að kaupa Tchouameni og Jürgen Klopp og stjórnin tók þá ákvörðun að liðið þurfti ekki miðjumann.

Sökin liggur hjá Klopp, og stjórninni. Þeir fara inn í tímabilið með þennan leikmannahóp og það sást strax í fyrsta leiknum gegn Fulham að miðjumenn liðsins réðu einfaldlega ekki við ákefðina í ensku úrvalsdeildinni.

Mótherjar Liverpool hafa hlaupið yfir miðsvæðið í öllum leikjum liðsins á tímabilinu og Liverpool-liðið kemur engum vörnum við,“ bætti Carragher við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert