Enska úrvalsdeildin kærir City fyrir fjölda brota

Leikmenn Manchester City fagna marki.
Leikmenn Manchester City fagna marki. AFP/Oli Scarff

Eftir fjögurra ára rannsókn hefur enska úrvalsdeildin í knattspyrnu karla tekið ákvörðun um að kæra ríkjandi Englandsmeistara Manchester City fyrir gífurlegan fjölda brota á reglum deildarinnar er lúta að fjármálum félaga.

Brotin snúa allflest að fjárhagsstöðu Man. City þar sem félaginu er gefið að sök að hafa ýkt tekjur sínar, sér í lagi frá styrktaraðilum, í bókhaldi þess mörg undanfarin ár.

Einnig snúa þau að tengdum aðilum, til að mynda fyrirtækjum sem virðast nátengd eigendum Man. City frá Abú Dabí, og rekstrarkostnaði félagsins.

Á heimasíðu ensku úrvalsdeildarinnar má sjá ítarlega útlistun á þeim brotum sem deildin telur Man. City hafa gerst sekt um.

Forsvarsmenn félagsins munu í framhaldinu koma fyrir nefnd hjá deildinni þar sem endanleg ákvörðun verður tekin og svo birt á heimasíðu ensku úrvalsdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert