Endurkoma skilaði United stigi gegn Leeds

Marcus Rashford skorar fyrsta mark Manchester United.
Marcus Rashford skorar fyrsta mark Manchester United. AFP/Oli Scarff

Þrettán leikja sigurgöngu Manchester United á heimavelli í öllum keppnum lauk er liðið gerði 2:2-jafntefli gegn Leeds í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Leeds byrjaði af gríðarlegum krafti og var ekki komin mínúta á klukkuna þegar Wilfried Gnonto skoraði með fallegu skoti rétt utan teigs, eftir sendingu frá Patrick Bamford.

Manchester United skapaði sér fullt af færum til að jafna fyrir hlé, en Illan Meslier varði nokkrum sinnum mjög vel og Maximilian Wöber varði einu sinni glæsilega á marklínu frá Alejandro Garnacho. Var staðan í leikhléi því 1:0, Leeds í vil.

Gestirnir í Leeds byrjuðu miklu betur í seinni hálfleik og eftir mikla pressu tvöfaldaði Leeds forskotið á 48. mínútu þegar Raphaël Varane setti boltann í eigið mark eftir sendingu frá Crysencio Sumerville.

Heimamenn neituðu að leggja árar í bát og Marcus Rashford minnkaði muninn á 62. mínútu, eftir fyrirgjöf frá Diego Dalot. Átta mínútum síðar jafnaði Jadon Sancho með skoti í teignum og nægur tími var þá eftir til að skora sigurmark.

Manchester-liðið var töluvert líklegra til að skora það, en vörn Leeds hélt vel og liðin skipta því með sér stigunum.

Manchester United er enn í þriðja sæti, nú með 43 stig. Leeds fór upp fyrir West Ham með stiginu og er liðið í 16. sæti, einu stigi fyrir ofan fallsæti.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. Utd 2:2 Leeds opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma. Nægur tími fyrir annað mark!
mbl.is