Casemiro fékk rautt í markalausu jafntefli

Anthony Taylor gefur Casemiro beint rautt spjald í leiknum.
Anthony Taylor gefur Casemiro beint rautt spjald í leiknum. AFP/Darren Staples

Manchester United gerði markalaust jafntefli við botnlið Southampton á Old Trafford í Manchester í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Fyrri hálfleikurinn var mjög skemmtilegur þrátt fyrir skort á mörkum. Marcus Rashford og Raphael Varane fengu góð færi fyrir United en Theo Walcott fékk líklega besta færi fyrri hálfleiksins á 24. mínútu. Romain Perraud átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri en David De Gea varði skalla Walcott af stuttu færi mjög vel.

Á 32. mínútu dró svo til tíðinda. Casemiro átti þá ljóta tæklingu á Carlos Alcaraz rétt fyrir utan teig United og fór gula spjaldið á loft. Eftir að hafa skoðað atvikið í VAR-skjánum ákvað dómari leiksins, Anthony Taylor, þó að breyta dómnum og gefa Brasilíumanninum beint rautt. Casemiro fór með takkanna á undan sér og þrátt fyrir að hafa snert boltann örlítið fór hann með fótinn í sköflunginn á Alcaraz og því alveg hægt að réttlæta rautt spjald. Var þetta í annað sinn sem Casemiro fær beint rautt spjald á tímabilinu.

Eftir spjaldið var United þó betri aðilinn og vildu leikmenn liðsins í tvígang fá vítaspyrnu á lokamínútum hálfleiksins. Í fyrra atvikinu féll Bruno Fernandes í teignum og Taylor dæmdi réttilega ekki vítaspyrnu þar en í seinna atvikinu fór boltinn klárlega í hönd Armel Bella-Kotchap sem fór niður á hnén til að stöðva fyrirgjöf, en aftur var ekkert dæmt. Staðan í hálfleik var því 0:0.

Seinni hálfleikurinn fór nokkuð rólega af stað en eftir um klukktíma lifnaði heldur betur yfir leiknum. Fyrst átti James Ward-Prowse skot í þverslánna úr aukaspyrnu. Á 64. mínútu slapp svo Theo Walcott aleinn í gegn en var of lengi að hlutunum og David De Gea varði frá honum. Skömmu síðar kom Gavin Bazunu í veg fyrir að heimamenn næðu forystunni en hann varði þá glæsilega í stöngina frá Bruno Fernandes sem lét vaða rétt utan teigs. Nánast strax í kjölfarið átti Kyle Walker-Peters svo stangarskot en fékk þá mikið pláss í teignum hægra megin eftir sutta hornspyrnu en náði ekki að nýta sér það.

Eftir þetta var United meira með boltann og Southampton-liðið virtist fara að einbeita sér algjörlega að því að sækja stigið. Það tókst og fara gestirnir líklega nokkuð sáttir heim.

United er áfram í þriðja sæti deildarinnar með 50 stig, 16 stigum frá toppliði Arsenal. Southampton er enn á botni deildarinnar með 22 stig.

Man. Utd 0:0 Southampton opna loka
90. mín. Alejandro Garnacho (Man. Utd) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert