Dagný tilnefnd sem besta knattspyrnukona í Lundúnum

Dagný Brynjarsdóttir er fyrirliði West Ham.
Dagný Brynjarsdóttir er fyrirliði West Ham. Ljósmynd/@westhamwomen

Dagný Brynjarsdóttir landsliðskona í knattspyrnu er tilnefnd í kjörinu á bestu knattspyrnukonu ársins 2022 í Lundúnum en verðlaunin verða afhent í kvöld.

Dagný, sem er fyrirliði West Ham, er ein af fimm sem eru tilnefndar í kjörinu en hinar  fjórar eru allar stjörnuleikmenn í enska fótboltanum með Arsenal og Chelsea. 

Það eru Beth Mead frá Arsenal, besta og markahæsta konan á EM kvenna í fyrra með enska landsliðinu, Kim Little, landsliðskona Skotlands og fyrirliði Arsenal, Sam Kerr, landsliðskona Ástralíu og leikmaður Chelsea sem er margverðlaunuð á sínum ferli, og Millie Bright, landsliðskona Englands og leikmaður Chelsea.

Í karlaflokki eru tilnefndir þeir Bukayo Saka og Martin Ödegaard frá Arsenal, Ivan Toney frá Brentford, Harry Kane frá Tottenham og Alexandar Mitrovic frá Fulham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert