Þakklátur fyrir stuðning og ítrekar fyrri orð

Lineker segir meirhluta Breta umburðarlynda.
Lineker segir meirhluta Breta umburðarlynda. AFP/Darren Staples

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi og þáttastjórnandinn Gary Lineker mun aftur birtast á skjám Breta eftir stormasama daga. Hann þakkar vinnufélögum sínum fyrir stuðning í verki og segir meirihluta Breta vera umburðarlynt fólk sem taki vel á móti öðrum.

Þann 7. mars síðastliðinn deildi Lineker skoðun sinni á nýju myndbandi innanríkisráðherra Bretlands sem snerist um það að stöðva flæði flóttafólks inn í landið í gegnum Ermarsundið. Hann kallaði myndbandið skelfilegt og virðist sem svo að þau orð hafi verið innlegg í frekari umræðu sem hefur verið eytt af Twitter, en svar hans situr eitt eftir.

Orðræðan kunnugleg

Í svari sínu segir hann ekki vera rétt að mikill fjöldi flóttafólks sé að koma inn í landið.

„Við tökum á móti mikið færra flóttafólki en aðrar stórar Evrópuþjóðir. Þetta er ómælanlega grimm stefna sem er beint að fólki sem er í viðkvæmri stöðu. Orðræðan sem er notuð er ekki ólík þeirri sem var notuð af Þýskalandi á fjórða áratug tuttugustu aldarinnar,“ skrifaði Lineker.

Í kjölfarið var Lineker settur í leyfi frá störfum sínum sem þáttastjórnandi „Match of the Day“ á BBC en hann var talinn hafa brotið hlutleysisstefnu stöðvarinnar. Leyfi Lineker vakti hörð viðbrögð og sögðust aðrir sérfræðingar þáttanna ekki ætla að mæta í sjónvarpsver á meðan að því væri haldið til streitu.

Sumir hafa kallað eftir því að Lineker verði næsti forsætisráðherra.
Sumir hafa kallað eftir því að Lineker verði næsti forsætisráðherra. AFP/Ben Stansall

Raunir flóttafólks vega þyngra

Eftir mikinn ágreining hefur Lineker nú verið boðaður aftur til starfa og þakkaði hann stuðningsfólki sínu á Twitter nú í morgun. Hann sagðist vera þakklátur fyrir stuðninginn sem samstarfsfólk hans hefði sýnt honum en ítrekaði skoðun sína á innflytjendastefnu landsins.

„Sama hversu erfiðir síðustu dagar hafa verið þá er ekki hægt að bera það saman við það að þurfa að flýja heimaland sitt vegna ofsókna eða stríðs og sækjast eftir skjóli langt frá heimaslóðum. Það yljar hjartanu að sjá samúðina sem svo mörg ykkar hafa sýnt þessum vanda. Við höldum áfram að vera land þar sem meirihluti fólks er umburðarlyndur, býður fólk velkomið og er rausnarlegt. Takk fyrir,“ skrifaði Lineker.

mbl.is