Hissa á litlu hrósi fyrir frammistöðuna

Rubén Sellés faðmar Theo Walcott eftir leikinn á Old Trafford …
Rubén Sellés faðmar Theo Walcott eftir leikinn á Old Trafford á sunnudag. AFP/Darren Staples

Rubén Sellés, bráðabirgðastjóri botnliðs Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, segir að fjölmiðlar hafi allt of mikið einblínt á rauða spjaldið sem Casemiro hjá Manchester United fékk í markalausu jafntefli liðanna í deildinni á sunnudag í stað þess að hrósa Dýrlingunum fyrir frammistöðu sína.

Á blaðamannafundi í dag var Sellés spurður hvort hann hafi verið hissa á viðbrögðum Eriks ten Hag, knattspyrnustjóra Man. United, eftir leik þar sem hann gagnrýndi dómgæsluna í leiknum og var ósammála beina rauða spjaldinu sem Casemiro fékk í fyrri hálfleik.

„Við höfum öll okkar skoðanir og viðbrögð. Ég var meira hissa á því að allir töluðu um rauða spjaldið en ekki um frammistöðu okkar. Það var stærsta atriðið frá mínum bæjardyrum séð.

Ég held að enginn hafi búist við því að við myndum standa Manchester United jafnfætis ellefu gegn ellefu á Old Trafford og skapa okkur færi til þess að vinna leikinn.

Við vorum góðir, við stóðum okkur vel en það var einblínt á Casemiro eftir þennan leik. Ég tel að umfjöllun um frammistöðu okkar gegn Manchester United hafi ekki verið sanngjörn.

Ég mun ekki tjá mig um hvað Erik eða nokkur annar frá Manchester United gerði. Ég vil einungis segja að við spiluðum vel og stóðum okkur vel. Það er það sem telur hjá mér,“ svaraði hinn spænski Sellés.

Southampton fær Brentford í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld og getur með sigri spyrnt sér af botninum og úr fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert