Vil verða hetja og goðsögn hjá Arsenal

Aaron Ramsdale.
Aaron Ramsdale. AFP/Glyn Kirk

Aaron Ramsdale, markvörður Arsenal, toppliðs ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, nýtur lífsins hjá Skyttunum út í ystu æsar og myndi gjarna vilja vera hjá félaginu út ferilinn.

Ramsdale, sem er 24 ára, hafði komið nokkuð víða við áður en hann var keyptur til Arsenal sumarið 2021.

Hann lék sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir Sheffield United, var lánaður þaðan til Worksop Town í ensku utandeildinni og var svo keyptur til Bournemouth.

Þaðan var Ramsdale lánaður til Chesterfield í D-deild og Wimbledon í C-deild.

Eftir eitt tímabil sem byrjunarliðsmaður hjá Bournemouth keypti Sheffield United hann til baka. Þar lék hann sömuleiðis eitt tímabil.

„Þetta var erfiður tími þegar ég var að skipta reglulega um félag og fór að láni. Ég hafði aldrei ímyndað mér að yfirgefa Bournemouth eftir eitt ár og sömuleiðis ekki að yfirgefa Sheffield eftir eitt ár.

Nú hef ég fundið stað þar sem ég sé fyrir mér að spila í tíu, tólf eða 15 ár. Það er markmiðið. Ég vil gjarna spila í fremstu röð í sem lengstan tíma og vona að ég yfirgefi aldrei félagið.

Þannig gæti ég orðið nokkurs konar hetja og goðsögn hjá félaginu,“ sagði Ramsdale í samtali við BBC Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert