Arsenal alltaf fullskipað – Við höfum verið það einu sinni

Erik Ten Hag.
Erik Ten Hag. AFP/Darren Staples

Erik Ten Hag, stjóri enska knattspyrnuliðsins Manchester United, segir að Alejandro Garnacho verði frá í einhverjar vikur eftir að hafa meiðst gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Þá ferðuðust þeir Anthony Martial og Antony ekki með liðinu til Spánar fyrir leik gegn Real Betis í Evrópudeildinni annað kvöld.

Þá eru Christian Eriksen og Donny van de Beek einnig að glíma við meiðsli og er langt í endurkomu þeirra og Casemiro er á leið í fjögurra leikja bann í enskum keppnum.

„Heimaleikurinn gegn Manchester City í janúar var í eina skiptið sem við vorum með fullskipaðan hóp. Í öllum öðrum leikjum hefur einhver verið meiddur, veikur eða í leikbanni. 

Ég horfi á Arsenal og þar er liðið nánast alltaf fullskipað.“

Arsenal hefur þó verið án brasilíska framherjans Gabriel Jesus undanfarna mánuði en hann var í fyrsta skiptið í leikmannahópi liðsins um helgina í langan tíma.

Þá sagði Ten Hag jafnframt að sjö lið gætu unnið ensku úrvalsdeildina í ár.

„Deildin hefur aldrei verið jafn erfið og hún er núna, það eru svo mörg góð lið. Þetta er ekki tveggja hesta kapphlaup heldur, fimm, sex eða jafnvel sjö hesta kapphlaup. Það eru sex eða sjö önnur lið sem vilja það sama og við.“

Manchester United mætir Real Betis í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar. United vann fyrri leik liðanna á Old Trafford 4:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert