Yngsti markvörður deildarinnar í 18 ár

Vicente Guaita hefur leikið alla leiki Crystal Palace í vetur …
Vicente Guaita hefur leikið alla leiki Crystal Palace í vetur en nú er hann meiddur. AFP/Ben Stansall

Crystal Palace teflir fram 19 ára gömlum markverði gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld og hann er yngsti markvörðurinn til að spila í deildinni í átján ár.

Joe Whitworth fær eldskírn sína á Selhurst Park í Lundúnum í kvöld þar sem báðir markverðir liðsins eru forfallaðir vegna meiðsla, þeir Vicente Guaita, sem er 36 ára og hefur spilað alla 26 leiki liðsins í úrvalsdeildinni á þessu tímabili, og varamarkvörðurinn Sam Johnstone, sem er 29 ára gamall. Þá eru tveir aðrir markverðir sem eru á mála hjá Palace í láni hjá öðrum liðum.

Whitworth hefur verið varamarkvörður Palace í níu leikjum í deildinni en leikur annars með 23-ára og 21-árs liðum félagsins.

Hann er sá yngsti í deildinni, 19 ára og 15 daga gamall, síðan Ben Alnwick lék 18 ára og 336 daga gamall fyrir Sunderland gegn Tottenham árið 2005.

mbl.is