Við verðum að komast í Meistaradeildina

Virgil van Dijk og félagar í Liverpool hafa verið mjög …
Virgil van Dijk og félagar í Liverpool hafa verið mjög óstöðugir í leik sínum í vetur. AFP/Steve Bardens

Virgil van Dijk, varnarmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, segir að það  sé liðinu nauðsynlegt að enda tímabilið vel og tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu fyrir næsta tímabil.

Liverpool hefur átt erfitt uppdráttar í vetur og eftir góðan kafla undanfarnar vikur kom talsvert bakslag um síðustu helgi þegar liðið tapaði fyrir Bournemouth.

Liverpool er í sjötta sæti deildarinnar, sex stigum á eftir Tottenham sem er í fjórða sætinu en fjögur efstu lið deildarinnar komast í Meistaradeildina. Liðið á tólf leiki eftir á tímabilinu.

„Ef við ætlum að vera áfram þar sem við höfum verið undanfarin fimm ár þá þurfum við að fá til okkar gæðaleikmenn í sumar," sagði van Dijk í viðtali við The Athletic í dag.

„Við viljum vera í Meistaradeildinni og það myndi hjálpa okkur til þess að fá leikmenn í fremstu í röð í heiminum til liðs við okkur," sagði hollenski varnarmaðurinn.

mbl.is