Eriksen á undan áætlun

Christian Eriksen.
Christian Eriksen. AFP/Darren Staples

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að danski miðjumaðurinn Christian Eriksen nálgist endurkomu eftir að hafa meiðst illa á ökkla í lok janúar.

Upphaflega var reiknað með því að Eriksen yrði frá þar til í lok apríl eða byrjun maí en ten Hag sagði í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV 2 Sport að miðjumaðurinn væri á undan áætlun í bata sínum og gæti snúið aftur eftir landsleikjahlé.

„Þetta er mjög jákvætt. Honum hefur batnað mjög hratt. Ég tel að hann verði ekki klár í slaginn á sunnudag en hann verður reiðubúinn í apríl.

Hann er á batavegi og á leiðinni til baka og það gleður okkur mikið,“ sagði ten Hag.

Á sunnudag fær Man. United Fulham í heimsókn í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar. Eftir helgina fer svo í hönd landsleikjahlé og má vænta þess að sjá Eriksen aftur á knattspyrnuvellinum að því loknu.

mbl.is