Hinn 75 ára gamli Hodgson í viðræðum um endurkomu til Palace

Roy Hodgson gæti verið að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina.
Roy Hodgson gæti verið að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina. AFP/Paul Ellis

Patrick Vieira var í morgun rekinn úr starfi knattspyrnustjóra enska liðsins Crystal Palace.

Mörg nöfn hafa verið nefnd til sögunnar sem mögulegir arftakar Vieira en Roy Hogdson, fyrrverandi stjóri liðsins, er nú talinn líklegastur að taka við.

Hogdson er 75 ára gamall og stýrði Palace árin 2017-2021, áður en Vieira tók við. Hogdson tók skömmu síðar við Watford eftir að Claudio Ranieri var rekinn þaðan, en mistókst að halda liðinu uppi í ensku úrvalsdeildinni og hætti.

Hogdson hefur þjálfað fjölmörg lið á ferli sínum sem knattspyrnustjóri en þar má helst nefna Liverpool, Inter Milan og enska landsliðið.

Samkvæmt breskum miðlum hefur Palace rætt við fleiri en Hogdson, m.a. Austuríkismanninn Adi Hütter, sem stýrði síðast Borussia Mönchengladbach í Þýskalandi.

mbl.is