Segir leikmann Bayern á leið til Liverpool

Ryan Gravenberch í leik með Bayern.
Ryan Gravenberch í leik með Bayern. AFP/Ina Fassbender

José Enrique, fyrrverandi leikmaður Liverpool, Newcastle og fleiri liða, segir að Ryan Gravenberch, leikmaður Bayern München í Þýskalandi sé á leið til síns gamla félags Liverpool.

Enrique heldur reglulega úti beinu streymi þar sem hann ræðir ýmislegt í tengslum við fótboltann en í gær fullyrti hann að Hollendingurinn Gravenberch væri á leið til Liverpool.

„Þessi leikmaður, Gravenberch, er okkar. Hann er með sama umboðsmann og Roberto Firmino sem er líka umboðsmaðurinn minn. Við erum hjá umboðsskrifstofu Mino Raiola og það fór fram fundur í London fyrir ekki svo löngu. Þessi leikmaður er okkar.“

Gravenberch er tvítugur og er hluti af U21 árs landsliði Hollendinga. Hann er uppalinn hjá Ajax en var keyptur til Bayern síðasta sumar. Hann á ellefu leiki fyrir A-landslið Hollands og hefur skorað í þeim eitt mark.

Fari svo að Liverpool kaupi Gravenberch verður hann þriðji Hollendingurinn í herbúðum Liverpool. Virgil van Dijk hefur verið þar frá árinu 2018 og í janúar á þessu ári keypti liðið Cody Gakpo.

mbl.is