Síðastliðið ár það erfiðasta í mínu lífi

Manor Solomon í leik með Fulham gegn Brentford á dögunum.
Manor Solomon í leik með Fulham gegn Brentford á dögunum. AFP/Adrian Dennis

Síðustu tólf mánuðir í lífi Ísraelsmannsins Manor Solomon, leikmanns enska knattspyrnuliðsins Fulham, hafa verið afar erfiðir. Hann var leikmaður Shakhtar Donetsk í Úkraínu og bjó í Kíev, þegar innrás Rússa í landið hófst.

„Ég vaknaði við sprengingar og sírenur, þetta var eins og í bíómynd. Það voru allir mjög hræddir því það var byrjað stríð og fólk vissi ekki hvað það ætti að gera.“

Solomon segist hafa pakkað í tösku og farið af stað, en 17 klukkustundum síðar var hann kominn að landamærum Úkraínu og Póllands. Þaðan var honum svo bjargað og komið heim til Ísraels.

Stríðið í Úkraínu er enn í gangi og segir Solomon það gífurlega erfitt að horfa uppá.

„Ég hugsa til allra sem eru ennþá þar. Síðastliðið ár var það erfiðasta í mínu lífi.“

Solomon er 23 ára gamall og hefur leikið virkilega vel með Fulham undanfarnar vikur. Hann skoraði til að mynda í fimm leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni á dögunum. Þá á hann 31 landsleik fyrir Ísrael og hefur skorað í þeim sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert