Conte hraunaði yfir leikmenn Tottenham og félagið

Antonio Conte.
Antonio Conte. AFP/Justin Tallis

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, var vægast sagt ósáttur á blaðamannafundi eftir að liðið missti tveggja marka forystu niður í jafntefli gegn botnliði Southampton í ensku úrvalsdeildinni í í gær.

Leiknum lauk 3:3 eftir að James Ward-Prowse jafnaði úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Þetta er saga Tottenham. Þessi eigandi hefur verið hér í 20 ár og félagið hefur ekki unnið neitt. Af hverju? Sökin er einungis félagsins, eða er hverjum einasta knattspyrnustjóra sem hefur verið hér um að kenna?

Ég hef séð stjórana sem hafa verið á hliðarlínunni hér. Maður tekur þá áhættu að skemma ímynd sína sem stjóri á meðan maður reynir að vernda liðið hverju sinni.

Þar til nú hef ég reynt að fela þessar aðstæður en ekki núna þar sem ég vil ekki sjá það sem ég sá í dag, því það er óviðunandi og sömuleiðis óviðunandi fyrir stuðningsmennina.

Þetta er ekki bara félagið, stjórinn og starfsfólk. Leikmennirnir verða að vera hluti af þessum aðstæðum því nú er tímabært að breyta þeim, vilji Tottenham breytast til hins betra,“ sagði Conte á blaðamannafundi eftir leikinn í gær.

Tottenham vann síðast titil árið 2008, enska deildabikarinn undir stjórn Juande Ramos.

Hvar eru leikmennirnir?

Hann dró ekkert undan og hélt áfram:

„Vilji félagið halda svona áfram getur það skipt um stjóra, marga stjóra, en þá geta aðstæðurnar ekki breyst. Trúið mér. Kannski hefðum við getað breytt einhverju í öðrum leikjum.

En hér höfum við vanist þessu um langt skeið. Félagið ber ábyrgð á félagaskiptamarkaðnum, hver einasti þjálfari hefur borið ábyrgð. En hvað með leikmennina? Hvar eru þeir?

Samkvæmt minni reynslu get ég fullyrt að ef maður vill vera samkeppnishæfur og vill berjast, verður maður að bæta hugarfarið. Sem stendur er þessi hluti mjög slakur. Ég sé aðeins ellefu leikmenn sem spila fyrir sig sjálfa.“

Vilja ekki spila undir pressu

Spurður af hverju þetta væri svona hjá leikmönnum Tottenham sagði Conte:

„Því þeir eru vanir því hérna. Þeir spila ekki upp á neitt mikilvægt hér. Þeir vilja ekki spila undir pressu, þeir vilja ekki spila stressaðir.“

Sem stendur er Tottenham í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar, síðasta Meistaradeildarsætinu, og er úr leik í báðum bikarkeppnunum á Englandi og sömuleiðis Meistaradeildinni.

„Það eru tíu leikir eftir og sumir halda að við getum barist. Hverju getum við barist fyrir með þessum anda, hugarfari og skuldbindingu? Hverju? Sjöunda, áttunda eða tíunda sæti?

Ég er ekki vanur því að vera í þessari stöðu. Ég er í miklu uppnámi og allir þurfa að axla sína ábyrgð,“ sagði bálreiður Conte að lokum.

mbl.is