Hodgson á blaði hjá Palace

Roy Hodgson á hliðarlínunni hjá Watford undir lok síðasta tímabils.
Roy Hodgson á hliðarlínunni hjá Watford undir lok síðasta tímabils. AFP/Paul Ellis

Hinn 75 ára gamli Roy Hodgson gæti tekið við stjórnartaumunum hjá karlaliði Crystal Palace í knattspyrnu karla að nýju eftir að Patrick Vieira var látinn taka pokann sinn fyrir helgi.

Hodgson stýrði Palace frá 2017 til 2021 og kvaðst eftir það vera hættur í þjálfun.

Hann tók hins vegar við Watford undir lok síðasta tímabils en gekk afleitlega og féll liðið niður í B-deild.

Hodgson lét þá hafa eftir sér að hann byggist ekki við að taka við starfi í ensku úrvalsdeildinni á ný.

BBC Sport greinir hins vegar frá því að Englendingurinn reynslumikli sé á blaði hjá Palace, sem er í tólfta sæti deildarinnar, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Liðið heimsækir topplið Arsenal í dag þar sem Paddy McCarthy, þjálfari U21-árs liðs Palace, stýrir gestunum til bráðabirgða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert