Þrjú rauð spjöld og Manchester United í undanúrslit

Aleksandar Mitrovic missti hausinn og eyðilagði fyrir sínum mönnum.
Aleksandar Mitrovic missti hausinn og eyðilagði fyrir sínum mönnum. AFP/Paul Ellis

Manchester United er komið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar eftir dramatískan sigur á Fulham á Old Trafford í dag, 3:1.

Fulham byrjaði betur en heimamenn komust betur inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleikinn. Heilt yfir var fyrri hálfleikur frekar jafn og bæði lið áttu ágætis rispur án þess að komast í nein dauðafæri.

Fulham líklegri aðilinn

Það var öllu meira líf í seinni hálfleiknum. Fulham byrjaði seinni hálfleikinn eins og þann fyrri, betur en heimamenn. Liðið gerði harða hríð að marki United á fyrstu fimm mínútunum og De Gea þurfti í tvígang að taka á honum stóra sínum.

Gestirnir fengu fjórar hornspyrnur á stuttum tíma og fjórða spyrnan varð að marki á 50. mínútu þegar Diop hælaði boltann glæsilega inn á markteiginn þar sem Mitrovic átti ekki í vandræðum með að koma boltanum yfir línuna, 1:0 Fulham í vil.

Misstu hausinn

Um miðjan seinni hálfleikinn komust heimamenn í góða sókn sem endaði með því að Sancho komst einn inn fyrir og fram hjá Leno, markverði Fulham. Hann náði skoti á markið en Willian varði boltann á línu með höndinni.

Hræðileg mistök hjá Willian sem fékk rautt spjald eftir að Kavanagh hafði farið í skjáinn. Aleksandar Mitrovic var ekki hrifinn af dómgæslunni og lét það berlega í ljós. Hann reifst og skammaðist og sagði vel valin orð við Kavanagh og stuggaði svo við dómaranum. Þá var hann umsvifalaust sendur í bað. Marco Silva, þjálfari Fulham, var þá sendur upp í stúku í látunum. Liðsmenn Fulham misstu hausinn algjörlega.

Bruno Fernandes skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni og jafnaði metin, 1:1.

Tveimur mínútum síðar labbaði Luke Shaw með boltann í gegnum vörn Fulham og upp að endamörkum. Hann fann svo Marcel Sabitzer í markteignum og Austurríkismaðurinn setti boltann skemmtilega fram hjá Leno með hælspyrnu, 2:1.

Róðurinn var orðinn þungur fyrir Fulham sem var nánast það sem eftir lifði leiks á eigin vallarhelmingi.

Bruno Fernandes gerði endanlega út um leikinn með firnaföstu skoti úr teignum á 6. mínútu viðbótartíma en sjö mínútum var bætt við.

Spjöldin breyttu leiknum

Rauða spjaldið og rauðu spjöldin breyttu leiknum og Manchester United sigldi í undanúrslit enska bikarsins þar sem liðið mun mæta Brighton. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Manchester City og Sheffield United. Leikið verður 22. apríl.

Mbl.is fylgdist með gangi mála og færði ykkur allt það helsta úr leiknum í beinni textalýsingu.

Manchester United freistar þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum …
Manchester United freistar þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar. AFP/Jorge Guerrero
Bruno Fernandes fagnar öðru marki sínu í dag og þriðja …
Bruno Fernandes fagnar öðru marki sínu í dag og þriðja marki United með félaga sínum Antony. AFP/Paul Ellis
Marcel Sabitzer skoraði gott mark og kom heimamönnum yfir.
Marcel Sabitzer skoraði gott mark og kom heimamönnum yfir. AFP/Paul Ellis
Bruno Fernandes skorar úr vítaspyrnunni.
Bruno Fernandes skorar úr vítaspyrnunni. AFP/Paul Ellis
Kavanagh sýnir Mitrovic rauða spjaldið.
Kavanagh sýnir Mitrovic rauða spjaldið. AFP/Paul Ellis
Jadon Sancho skýtur að marki en Willian ver boltann á …
Jadon Sancho skýtur að marki en Willian ver boltann á línu með höndinni. AFP/Paul Ellis
David de Gea með eina af nokkrum góðum vörslum í …
David de Gea með eina af nokkrum góðum vörslum í dag. AFP/Paul Ellis
Mitrovic fagnar marki sínu í dag.
Mitrovic fagnar marki sínu í dag. AFP/Paul Ellis
Man. Utd 3:1 Fulham opna loka
90. mín. Tom Cairney (Fulham ) kemur inn á
mbl.is