Enska knattspyrnusambandið kærir Mitrovic, Silva og Fulham

Mitrovic fær að líta rauða spjaldið frá Chris Kavanagh í …
Mitrovic fær að líta rauða spjaldið frá Chris Kavanagh í leiknum í gær. AFP/Paul Ellis

Manchester United sló Fulham út úr enska bikarnum í gær með sigri á Old Trafford, 4:1. Í stöðunni 1:0 fyrir Fulham fékk Willian, leikmaður Fulham, rautt spjald fyrir að verja boltann með hendi á marklínu. Í kjölfarið fengu svo Marco Silva, þjálfari liðsins og Aleksandar Mitrovic, framherji liðsins, einnig rautt fyrir viðbrögð sín.

Silva fékk rautt spjald fyrir hegðun sína en hann óð að Chris Kavanagh, dómara leiksins, þegar hann var að skoða atvikið þar sem Willian fékk boltann í höndina í VAR-skjánum. Silva virtist láta nokkur vel valin orð falla sem féllu ekki vel í kramið hjá Kavanagh.

Eftir að hafa sýnt Silva rauða spjaldið gekk Kavanagh inn á völlinn til að gefa Willian rautt. Eftir að hafa gert það trylltist Mitrovic og sýndi dómaranum mjög ógnandi hegðun, þar sem hann ýtti meðal annars nokkuð harkalega við honum. Eðlilega fékk serbneski framherjinn rautt spjald fyrir það og þar með höfðu þrír Fulham-menn fengið rautt spjald á innan við mínútu.

Nú hefur verið gefið út að enska knattspyrnusambandið hafi ákært þá Silva og Mitrovic fyrir hegðun sína, sem og félagið fyrir að hafa ekki stjórn á þeim. Tvímenningarnir gætu því átt yfir höfði sér lengra bann en þá þrjá leiki sem venjan er og Fulham mun væntanlega fá væna sekt.

mbl.is