Liverpool að heltast úr lestinni?

Jude Bellingham er gríðarlega eftirsóttur.
Jude Bellingham er gríðarlega eftirsóttur. AFP/Glyn Kirk

Manchester City og Real Madrid eru nú sögð leiða kapphlaupið um enska knattspyrnumanninn Jude Bellingham.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Bellingham, sem er einungis 19 ára gamall, er sagður efstur á óskalista Jürgens Klopp og Liverpool í sumar.

Bellingham hefur verið sterklega orðaður við Liverpool undanfarið árið en hann er samningsbundinn Borussia Dortmund í Þýskalandi til sumarsins 2025.

Liverpool í sjötta sætinu

Dortmund þarf því ekki að selja leikmanninn og í frétt The Athletic kemur meðal annars fram að Liverpool hafi ekki fjárhagslega burði til þess að keppa við City eða Real Madrid um leikmanninn.

Þetta á sérstaklega við ef Liverpool nær ekki að enda í efstu fjórum sætum deildarinnar sem jafnframt gefur sæti í Meistaradeildinni á komandi keppnistímabili.

Talið er að Dortmund sé tilbúið að selja leikmanninn fyrir 120 milljónir punda en verðmiðinn gæti hækkað frekar ef stærstu lið Evrópu ætla sér öll að berjast um starfskrafta hans.

Liverpool situr sem stendur í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 42 stig, sjö stigum minna en Tottenham, sem er í fjórða sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert