Hodgson ráðinn aftur til Palace

Roy Hodgson er mættur aftur til Crystal Palace.
Roy Hodgson er mættur aftur til Crystal Palace. AFP

Roy Hodgson hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska liðsins Crystal Palace út yfirstandandi tímabil.

Hodgson, sem stýrði Palace í ensku úrvalsdeildinni árin 2017 til 2021, tekur við starfinu af Patrick Vieira sem var látinn taka pokann sinn eftir dræmt gengi á árinu.

Palace er í tólfta sæti deildarinnar en aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsæti eftir að hafa ekki unnið einn einasta leik á árinu 2023.

Hodgson, sem er 75 ára gamall og hokinn af reynslu í þjálfun, stýrði síðast Watford síðari hluta síðasta tímabils en gekk afleitlega og liðið féll úr úrvalsdeildinni niður í B-deild.

Hann kvaðst spenntur að snúa aftur til Palace.

„Það eru forréttindi að vera beðinn um að snúa aftur til félagsins sem hefur ávallt staðið mér nærri og fá úthlutað því mikilvæga verkefni að snúa gengi liðsins við.

Eina markmiðið okkar núna er að byrja að vinna leiki og ná í þann fjölda stiga sem er nauðsynlegt til þess að tryggja sæti okkar í úrvalsdeildinni.

Crystal Palace er þekkt fyrir baráttuanda sinn og ég er ekki í nokkrum vafa um að allir stuðningsmenn okkar muni berjast með okkur, þar sem við byrjum á að Leicester City í heimsókn annan laugardag,“ sagði Hodgson í samtali við heimasíðu Palace.

mbl.is