Rautt spjald Nunes dregið til baka

Matheus Nunes í leik með Úlfunum.
Matheus Nunes í leik með Úlfunum. AFP/Paul Ellis

Rauða spjaldið sem portúgalski miðjumaðurinn Matheus Nunes fékk í leik Wolverhampton Wanderers og Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um síðustu helgi hefur verið dregið til baka af enska knattspyrnusambandinu.

Nunes fékk beint rautt spjald undir lok leiksins þegar hann ásamt liðsfélögum og starfsliði mótmælti fjórða marki andstæðinganna, en leiknum lauk með 4:2-sigri Leeds.

Brotið var á Adama Traoré í aðdraganda marksins, sem Rodrigo skoraði, en fékk þrátt fyrir það að standa.

Dómarar leiksins töldu Nunes hafa stjakað við aðstoðardómaranum en að vel athuguðu máli sást að Portúgalinn bakkaði á hann, sem gat ekki talist annað en óviljaverk.

Af þeim sökum áfrýjuðu Úlfarnir spjaldinu til enska knattspyrnusambandsins, sem féllst á skýringar félagsins og sleppur Nunes því við þriggja leikja bann.

mbl.is