Tottenham ætti að halda Conte sem lengst

Matt Doherty í síðasta leik sínum fyrir Tottenham í janúar …
Matt Doherty í síðasta leik sínum fyrir Tottenham í janúar síðastliðnum. AFP/Lindsey Parnaby

Írski bakvörðurinn Matt Doherty, leikmaður Atlético Madríd, segir að Tottenham Hotspur ætti að gera allt sem í valdi sínu stendur til þess að halda Ítalanum Antonio Conte í starfi knattspyrnustjóra.

Samkvæmt breskum miðlum er afar líklegt að Conte verði brátt látinn taka pokann sinn eftir að hafa úthúðað félaginu og leikmönnum þess á blaðamannafundi eftir 3:3-jafntefli gegn botnliði Southampton í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Doherty, sem vann með Conte hjá Tottenham í eitt og hálft tímabil áður en hann skipti til Atlético í janúar síðastliðnum, segir að það yrði mikill afleikur hjá félaginu myndi það ákveða að reka hann.

„Hann er ótrúlegur þjálfari, ótrúlegur knattspyrnustjóri. Hann segir ekkert við fjölmiðla sem hann segir ekki við leikmennina sína.

Hann er fullkomlega heiðarlegur við leikmenn sína og hefur ástríðu fyrir félaginu í heild. Hvað mig varðar vona ég að Tottenham haldi tryggð við hann og reyni að halda honum eins lengi og þeim er unnt.

Hann er einn besti knattspyrnustjóri allra tíma,“ sagði Doherty á blaðamannafundi fyrir leik Írlands gegn Lettlandi í undankeppni EM 2024 í gær.

mbl.is