Leikmaður United fullkominn fyrir Newcastle

Scott McTominay hefur verið orðaður við Newcastle að undanförnu.
Scott McTominay hefur verið orðaður við Newcastle að undanförnu. AFP/Glyn Kirk

Sparkspekingurinn Danny Murphy telur að skoski miðjumaðurinn Scott McTominay myndi henta enska úrvalsdeildarfélaginu Newcastle fullkomlega.

McTominay, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Manchester United en talið er næsta víst að hann muni yfirgefa United í sumar.

Hann er uppalinn hjá United en alls á hann að baki 202 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 18 mörk.

Leggur hart að sér

„Ég er mjög hrifinn af McTominay,“ sagði Murphy í samtali við talkSport en hann gerði garðinn meðal annars frægan með Liverpool á ferlinum.

„Mér finnst hann fá mjög ósanngjarna gagnrýni oft og tíðum. Fyrir mér þá hentar leikstíll Newcastle honum mjög vel og hann yrði fullkominn fyrir þá.

Hann er mikill íþróttamaður, hleypur mikið og leggur hart að sér,“ bætti Murphy við.

mbl.is