Foden missir af leiknum gegn Liverpool

Phil Foden missir af leiknum gegn Liverpool, en Erling Haaland …
Phil Foden missir af leiknum gegn Liverpool, en Erling Haaland er einnig tæpur. AFP/Oli Scarff

Englendingurinn Phil Foden verður ekki með Manchester City í leik liðsins gegn Liverpool næstu helgi í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Þetta staðfesti félagið í yfirlýsingu.  

Foden fékk botnlangakast og er búinn að yfirgefa herbúðir enska landsliðsins. Mun hann þurfa að gangast undir aðgerð. 

Samkvæmt heilbrigðiskerfi Breta tekur vanalega tvær til fjórar vikur til að hefja eðlilega starfsemi á ný eftir botnlangaaðgerð. Óljóst er þó hvort atvinnumannafótbolti falli undir það. 

Þetta er mikill skellur fyrir City-liðið en eftir erfitt tímabil hefur Foden verði að finna taktinn á ný undanfarið. En ásamt meiðslum Foden er ekki vitað hvort Norðmaðurinn Erling Haaland verði heill heilsu fyrir stórleikinn. 

Manchester City mætir Liverpool í hádegisleiknum klukkan 11.30, að íslenskum tíma, næsta laugardag. 

mbl.is