Bakvörður Tottenham frá í sex vikur

Emerson Royal meiddist í vináttulandsleik gegn Marokkó á laugardagskvöld.
Emerson Royal meiddist í vináttulandsleik gegn Marokkó á laugardagskvöld. AFP/Fadel Senna

Emerson Royal, vængbakvörður enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur, meiddist á hné í leik með brasilíska landsliðinu og þarf af þeim sökum að gangast undir aðgerð.

The Athletic greinir frá því að reiknað sé með því að Emerson verði frá um sex vikna skeið.

Eftir sex vikur verður farið að styttast í annan endann á yfirstandandi tímabili og því er mögulegt að þátttöku Brassans, sem meiddist í vináttulandsleik gegn Marokkó á laugardagskvöld, á því sé lokið.

Ef allt fer vel er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að Emerson geti tekið þátt í þremur síðustu umferðum ensku úrvalsdeildarinnar.

mbl.is