Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United hafa hafnað fjölda tilboða í enska sóknarmanninn Mason Greenwood.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Greenwood, sem er 21 árs gamall, var handtekinn í janúar á síðasta ári grunaður um nauðgun, líkamsárás og líflátshótanir í garð fyrrverandi unnustu sinnar.
Réttarhöld yfir leikmanninum áttu að hefjast í nóvember á þessu ári en málið var að endingu látið niður falla eftir að lykilvitni í málinu drógu framburð sinn til baka.
Greenwood hefur hvorki æft né spilað fyrir United síðan hann var handtekinn en mál leikmannsins er nú til skoðunar innan félagsins.
The Athletic greinir frá því að fjöldi tilboða frá Tyrklandi hafi borist í leikmanninn en þeim hefur öllum verið hafnað.
Óvíst er hvort Greenwood verði í herbúðum United á næstu leiktíð en hann er samningsbundinn félaginu til sumarsins 2025.