Læsti leikmennina inn í klefa

Antonio Conte var rekinn á dögunum.
Antonio Conte var rekinn á dögunum. AFP/Justin Tallis

Knattspyrnustjórinn Antonio Conte á að hafa læst leikmenn Tottenham inn í búningsklefa liðsins á æfingasvæði félagsins eftir slæma taphrinu liðsins í janúarmánuði.

Það er ítalski miðillinn Corriero dello Sport sem greinir frá þessu en Conte, sem er 53 ára gamall, var látinn taka pokann sinn hjá félaginu á dögunum.

Eftir að liðið hafði aðeins unnið einn leik af fimm í janúar ákvað Conte að læsa leikmennina inn í klefa og skipað þeim að finna svör við því af hverju spilamennska liðsins hefði hríðversnað eftir áramót.

Tókst að snúa genginu við

Leikmenn Tottenham tjáðu þá stjóranum að liðið spilaði of varnarsinnaðan fótbolta og ef liðið ætti að ná vopnum sínum á nýjan leik þyrfti að leggja meiri áherslu á sóknarleikinn.

Tottenham tókst að snúa genginu við, en aðeins til skamms tíma, og liðið féll að endingu úr leik í ensku bikarkeppninni eftir tap gegn B-deildarliði Sheffield United.

Eftir tapið gegn Sheffield United fór að síga á ógæfuhliðina hjá ítalska stjóranum sem var að endingu rekinn um síðustu helgi.

mbl.is