Segja Liverpool hafa lagt fram risatilboð

Jude Bellingham.
Jude Bellingham. AFP/Glyn Kirk

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa lagt fram risatilboð í enska miðjumanninn Jude Bellingham.

Það er vefmiðillinn Caught Offside sem greinir frá þessu en miðillinn vitnar sérstaklega í breska umboðsmanninn Haydn Dodge í frétt sinni en Dodge er pistlahöfundur á vefmiðlinum.

Tilboðið er sagt hljóða upp á 100 milljónir punda en Bellingham, sem er samningsbundinn Borussia Dortmund í Þýskalandi, hefur verið sterklega orðaður við Liverpool allt tímabilið.

Einn sá eftirsóttasti

Bellingham er einungis 19 ára gamall en er þrátt fyrir það á meðal eftirsóttustu leikmanna heims en hann hefur verið orðaður við öll stærstu félög Evrópu undanfarna mánuði.

Talið er næsta víst að hann muni yfirgefa Dortmund í sumar en hann gekk til liðs við félagið frá uppeldisfélagi sínu Birmingham sumarið 2020.

Alls á hann að baki 124 leiki fyrir Dortmund þar sem hann hefur skorað 20 mörk og þá á hann að baki 24 A-landsleiki fyrir England þar sem hann hefur skorað eitt mark.

mbl.is