Stephens leggur skóna á hilluna

Dale Stephens gekk til liðs við Burnley sumarið 2020.
Dale Stephens gekk til liðs við Burnley sumarið 2020. Ljósmynd/Burnley

Enski knattspyrnumaðurinn Dale Stephens hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir að hafa verið án félags frá því í sumar.

Stephens er 33 ára gamall og var síðast á mála hjá Burnley í ensku úrvalsdeildinni, þegar liðið féll úr henni á síðasta tímabili.

Þar áður lék hann lengi vel fyrir Brighton & Hove Albion og var lykilmaður hjá liðinu sem kom upp úr B-deildinni tímabilið 2016/2017 og þrjú tímabil í úrvalsdeildinni þar á eftir.

Áður en hann hann gekk til liðs við Brighton í janúar árið 2014 hafði hann leikið í neðri deildum Englands, en síðustu fimm tímabilum sínum á ferlinum varði hann í úrvalsdeildinni.

Eftir að Burnley ákvað að endurnýja ekki samning Stephens síðastliðið sumar gagnrýndi hann félagið fyrir að hafa ekki rætt við sig og að hann hafi þurft að frétta af því að hann fengi ekki nýjan samning á Twitter-aðgangi Burnley.

mbl.is