Biðjast afsökunar á látunum á Old Trafford

Aleksandar Mitrovic veitist að Chris Kavanagh á Old Trafford.
Aleksandar Mitrovic veitist að Chris Kavanagh á Old Trafford. AFP/Paul Ellis

Marco Silva, knattspyrnustjóri Fulham á Englandi, og framherjinn Aleksandar Mitrovic hafa beðist afsökunar á hegðun sinni er liðið mætti Manchester United í enska bikarnum á Old Trafford sunnudaginn 19. mars.

Fengu þeir báðir rautt spjald í stöðunni 1:0 fyrir Fulham, í kjölfar þess að Manchester United fékk víti í seinni hálfleik og Brasilíumanninum Willian var vikið af velli. Silva fékk rautt fyrir mótmæli og Mitrovic fyrir að veitast að dómaranum Chris Kavanagh.

United vann að lokum 3:1, enda Fulham tveimur mönnum færri og án stjórans síns.

„Ég hefði átt að hafa betri stjórn á tilfinningunum mínum. Hann er einn af bestu dómurum landsins og það verður virðing okkar á milli næst þegar ég hitti hann,“ var haft eftir Silva í yfirlýsingu.

„Ég sé mikið eftir þessu. Ég lét skapið hlaupa með mig í gönur og ég brást vitlaust við. Ég á skilið þriggja leikja bann og ég er búinn að ræða við Kavanagh og biðjast afsökunar,“ er haft eftir Mitrovic.

Hann gæti þó verið á leiðinni í lengra bann, fyrir að grípa í dómarann með ógnandi hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert