Til Barcelona í annað sinn á tveimur árum?

Pierre-Emerick Aubameyang gekk til liðs við Chelsea frá Barcelona í …
Pierre-Emerick Aubameyang gekk til liðs við Chelsea frá Barcelona í september 2022. AFP

Knattspyrnumaðurinn Pierre-Emerick Aubameyang er í dag orðaður við endurkomu til knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni.

Það er spænski miðillinn Sport sem greinir frá þessu en framherjinn, sem er 33 ára gamall, er samningsbundinn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Aubameyang gekk til liðs við Chelsea frá Barcelona síðasta haust fyrir rúmlega tíu milljónir punda en hann gekk til liðs við Barcelona í janúar 2022 frá Arsenal.

Framherjinn hefur fengið fá tækifæri með Chelsea á tímabilinu og aðeins byrjað fjóra leiki í úrvalsdeildinni.

Hann er ekki í framtíðarplönum Grahams Potters, stjóra Chelsea, en Aubameyang skoraði 13 mörk í 24 leikjum með Barcelona á þeim átta mánuðum sem hann var samningsbundinn félaginu.

mbl.is