Tveir af þeim sigursælustu í frægðarhöllina

Sir Alex Ferguson stýrði United á árunum 1986 til 2013.
Sir Alex Ferguson stýrði United á árunum 1986 til 2013. Ljósmynd/Premier League

Knattspyrnustjórarnir Sir Alex Ferguson og Arséne Wenger voru í morgun vígðir inn í frægðarhöll ensku úrvalsdeildarinnar.

Ferguson er sigursælasti stjórinn í sögu úrvalsdeildarinnar en hann stýrði Manchester United á árunum 1986 til 2013 og varð liðið þrettán sinnum Englandsmeistari undir hans stjórn.

Alls hafa sex leikmenn sem léku undir stjórn Fergusons hjá United verið teknir inn í frægðarhöllina; þeir David Beckham, Eric Cantona, Roy Keane, Wayne Rooney, Peter Schmeichel og Paul Scholes.

Ferguson stýrði United í 810 leikjum í úrvalsdeildinni og vann hann 528 þeirra en hann var útnefndur stjóri ársins í deildinni alls ellefu sinnum.

Sá langlífasti í deildinni

Wenger stýrði Arsenal á árunum 1996 til 2018 og stýrði hann Arsenal þrívegis til sigurs í úrvalsdeildinni.

Franski þjálfarinn á metið yfir langlífustu stjóra deildarinnar eða 22 tímabil alls en tímabilið 2003-04 fór Arsenal í gegnum leiktíðina án þess að tapa leik sem er met á Englandi.

Hann stýrði Arsenal í 828 leikjum þar sem hann vann 476 þeirra. Hann var útnefndur stjóri ársins í deildinni í þrígang; 1998, 2002 og 2004.

Arséne Wenger stýrði Arsenal á árunum 1996 til 2018.
Arséne Wenger stýrði Arsenal á árunum 1996 til 2018. Ljósmynd/Premier League
mbl.is