Verður að slíta öll tengsl við Liverpool

Steven Gerrard er uppalinn hjá Liverpool.
Steven Gerrard er uppalinn hjá Liverpool. AFP

Sparkspekingurinn Richard Keys telur að Steven Gerrard verði að slíta sig frá Liverpool ætli hann sér að stjórna liði í ensku úrvalsdeildinni í komandi framtíð.

Gerrard, sem er 42 ára gamall, stýrði Aston Villa í ellefu mánuði áður en hann var rekinn frá félaginu en hann er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Liverpool eftir að hafa leikið með liðinu á árunum 1998 til 2015 og verið fyrirliði liðsins lengi vel.

Gerrard stýrði Rangers í Skotlandi á árunum 2018 til 2021, áður en hann tók við stjórnartaumunum hjá Aston Villa, en hann gerði Rangers að skoskum meisturum árið 2021.

Sáu hann sem fyrirliða Liverpool

„Ef Gerrard vill stýra liði í ensku úrvalsdeildinni þá getur hann ekki verið að taka þátt í einhverjum goðsagnarleikjum með Liverpool eins og gegn Celtic um helgina,“ sagði Keys í samtali við Liverpool Echo.

„Gerrard verður að slíta öll tengsl við Liverpool á komandi árum því hans stærsta vandamál hjá Aston Villa var það að stuðningsmennirnir sáu hann alltaf sem fyrirliða Liverpool. 

Kannski hefur hann engan áhuga á því að þjálfa aftur, ég veit það ekki, en ef þetta er sú braut sem hann vill feta þá þarf hann að slíta sig frá uppeldisfélagi sínu,“ bætti Keys við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert