Hótuðu öllu illu ef Conte yrði ekki rekinn

Samband Richarlisons og Antonio Conte var ekki gott.
Samband Richarlisons og Antonio Conte var ekki gott. AFP/Adrian Dennis

Knattspyrnumennirnir Cristian Romero og Richarlison hótuðu báðir að yfirgefa enska knattspyrnufélagið Tottenham ef Antonio Conte yrði áfram stjóri liðsins.

Það er argentínski miðillinn TyC Sports sem greinir frá þessu en Conte, sem er 53 ára gamall, var rekinn frá félaginu á sunnudaginn var eftir 16 mánuði í starfi.

Richarlison hafði áður gagnrýnt Conte eftir að þjálfarinn setti hann á bekkinn fyrir síðari leik liðsins gegn AC Milan í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar en Tottenham tapaði einvíginu og féll úr leik.

Bæði Richarlison og Romero eiga að hafa farið á fund með stjórnarformanninum Daniel Levy og tilkynnt honum að þeir væru tilbúnir að fara frá félaginu ef Conte yrði áfram við stjórnvölinn.

Þá voru fleiri leikmenn liðsins ósáttir með vinnubrögð stjórans, en í vikunni bárust meðal annars fréttir af því að hann hefði læst leikmenn inn í búningsklefa liðsins og skipað þeim að finna lausnir við slæmri spilamennsku liðsins.

mbl.is