Liverpool líklegasti áfangastaðurinn

Mason Mount er eftirsóttur.
Mason Mount er eftirsóttur. AFP/Justin Tallis

Knattspyrnumaðurinn Mason Mount mun að öllum líkindum yfirgefa enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea í sumar.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Mount, sem er 24 ára gamall, hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning í Lundúnum.

Núverandi samningur hans rennur út næsta sumar og því gæti Chelsea þurft að selja hann í sumar í stað þess að eiga það á hættu að missa hann frítt þarnæsta sumar.

Eftirsóttur á Englandi

Mount er uppalinn hjá félaginu og á að baki 192 leiki fyrir Chelsea þar sem hann hefur skorað 33 mörk og lagt upp önnur 37.

The Athletic greinir frá því að Liverpool sé líklegasti áfangastaður leikmannsins en Jürgen Klopp er sagður mikill aðdáandi hans. Félagið þyrfti hins vegar að borga að minnsta kosti 50 milljónir punda fyrir sóknarmanninn.

Þá hafa Manchester City, Manchester United, Newcastle og Tottenham öll áhuga á honum líka og þá hefur Bayern München einnig verið nefnt til sögunnar en hans fyrrverandi stjóri hjá Chelsea, Thomas Tuchel, tók við stjórnartaumunum hjá Bayern á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert