Vill ólmur komast til Englands

Luis Enrique á hliðarlínunni gegn Marokkó á HM í Katar.
Luis Enrique á hliðarlínunni gegn Marokkó á HM í Katar. AFP/Odd Andersen

Knattspyrnustjórinn Luis Enrique vill ólmur stýra liði í ensku úrvalsdeildinni en hann lét af störfum sem þjálfari spænska karlalandsliðsins eftir HM í Katar.

Enrique, sem er 52 ára gamall, hefur stýrt Roma, Celta, Barcelona og spænska landsliðinu á þjálfaraferlinum.

Hann gerði Barcelona að þreföldum meisturum tímabilið 2014-15 þegar liðið varð Spánarmeistari, bikarmeistari og Evrópumeistari en Spánverjar féllu úr leik í 16-liða úrslitum HM í Katar eftir tap gegn Marokkó í vítaspyrnukeppni.

Fer ekki til Englands í sumar

„Mig langar mikið til þess að starfa á Englandi,“ sagði Enrique í samtali við hlaðvarpsþáttinn La SER Gijon.

„Ég sé hins vegar ekki fyrir mér að ég sé að fara taka við liði í ensku úrvalsdeildinni í sumar. Ég vil taka við félagi þar sem ég get gert mikilvæga hluti og það er erfitt.

Ég er ekki tilbúinn að taka við hvaða liði sem er,“ bætti Enrique við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert