Tekur hann áhættu með Haaland?

Erling Haaland hefur skorað 42 mörk á tímabilinu fyrir Pep …
Erling Haaland hefur skorað 42 mörk á tímabilinu fyrir Pep Guardiola og Manchester City. AFP/Oli Scarff

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að hann þurfi kannski að taka áhættu og láta Erling Haaland spila með liðinu gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

City tekur þá á móti Liverpool á Etihad-leikvanginum klukkan 11.30 og hefur ekki efni á að tapa sigum í baráttunni við Arsenal um enska meistaratitilinn en Arsenal er með átta stiga forystu og mætir Leeds á heimavelli síðar á morgun.

„Lífið er fullt af áhættum og stundum þarftu að taka áhættu. Læknarnir munu sjá til hvernig honum líður, og ekki síst leikmaðurinn sjálfur. Við höfum skorað fullt af mörkum í vetur og hann hefur skorað ótrúlegan fjölda af mörkum," sagði Guardiola en Haaland glímir við nárameiðsli og missti af leikjum Norðmanna í undankeppni EM í landsleikjahléinu.

„Liverpool er með einstakt lið og álit mitt á því hefur ekkert breyst. Þeir geta unnið hvaða lið sem er, rétt eins og við. Í vetur er annað lið okkar hættulegasti andstæðingur, en þeir verða áfram miklir keppinautar okkar, sama hvað gerist," sagði Guardiola.

mbl.is