Guardiola: Geturðu nefnt einn leikmann sem spilaði ekki vel?

Guardiola fylgist með sínum mönnum í dag.
Guardiola fylgist með sínum mönnum í dag. AFP/Paul Ellis

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var skiljanlega hæstánægður eftir öruggan 4:1-heimasigur á Liverpool í stórleik í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Þrátt fyrir að Liverpool hafi komist yfir í fyrri hálfleik var City mun sterkari aðilinn og sigurinn verðskuldaður.

„Frá fyrstu mínútu og fram að 93. mínútu var þetta nánast hin fullkomna frammistaða. Í stöðunni 1:0 vorum við líka að spila vel. Við fundum svæði, vörðumst vel og pressuðum,“ sagði Guardiola við BBC eftir leik.

Guardiola sagði alla leikmenn City hafa spilað vel í dag. „Geturðu nefnt einn leikmann sem spilaði ekki vel? Það var enginn sem lék ekki vel. Við gerðum vel á öllum sviðum og leikmennirnir eiga hrós silið,“ sagði spænski stjórinn.

mbl.is