Toppliðið með sannfærandi sigur

Gabriel Jesus fagnar fyrsta marki leiksins.
Gabriel Jesus fagnar fyrsta marki leiksins. AFP/Glyn Kirk

Arsenal sigraði Leeds, 4:1, á Emirates-leikvanginum í London í 29. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag og náði með því á ný átta stiga forskoti á Manchester City á toppi deildarinnar.

Mikel Arteta er á góðri leið með að skrá sig á spjöld sögunnar hjá Arsenal-mönnum og vinna fyrsta meistaratitilinn síðan 2004. Arsenal er með 72 stig á toppnum gegn 64 stigum hjá City en Arsenal á eftir níu leiki og City tíu.

Leeds er hins vegar í miklum vandræðum og í hörkubotnbaráttu og ljóst er að allir leikir hér eftir eru mikilvægir fyrir þá hvítklæddu. Þeir sitja í 16. sæti með 26 stig, stigi fyrir ofan fallsæti.

Arsenal gerði aðeins eina breytingu á byrjunarliði sínu frá síðasta leik en Bukayo Saka fékk að hvíla sig á bekknum á meðan Gabriel Jesus mætti aftur í byrjunarliðið. Gestirnir gerðu hins vegar fjórar breytingar á byrjunarliði sínu frá síðasta leik þar sem meiðsli lykilmanna settu strik í reikninginn.

Wilfried Gnonto og Maximilian Wöber meiddust í landsleikjahléinu og komu Georginio Summerville og Luis Sinisterra inn í liðið í þeirra stað. Weston McKennie og Patrick Bamford byrjuðu á bekknum í dag en Rasmus Kristensen og Pascal Struijk komu inn í lið gestanna.

Það tók aðeins 20 sekúndur fyrir gestina að eiga fyrstu tilraunina í þessum leik þegar Rasmus Kristensen átti hörkuskot sem Aaron Ramsdale varði vel.

Eftir þetta róaðist leikurinn og gestirnir náðu að loka á flestallar aðgerðir heimaliðsins. Gabriel Jesus átti skalla yfir á 11. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf Granit Xhaka.

Það var svo á 35. mínútu sem dró til tíðinda. Gestirnir höfðu verið að sækja á heimamenn og áttu tvö skot með stuttu millibili sem Ramsdale varði vel. Arsenal-menn komust í sókn og Gabriel Jesus fíflaði Kristensen inni í teig gestanna.

Luke Ayling henti sér þá í mjög klaufalega tæklingu og sparkaði í hné Brassans knáa og vítaspyrna var dæmd. Gabriel Jesus fór sjálfur á punktinn og skoraði í mitt markið af miklu öryggi. 1:0 fyrir heimamenn og róðurinn orðinn þungur fyrir gestina.

Lítið gerðist næstu mínútur á eftir og staðan 1:0 fyrir Arsenal þegar Darren England dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Seinni hálfleikur var rétt rúmlega mínútu gamall þegar Arsenal hafði aukið forystu sína í 2:0. Gabriel Martinelli gerði þá mjög vel á vinstri kantinum, átti frábæra fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Ben White var mættur og skilaði boltanum í slánna og inn. Virkilega gott mark hjá heimamönnum.

Eftir þetta var bara spurning hversu stór sigurinn yrði. Á 55. mínútu komust heimamenn svo í 3:0 þegar Gabriel Jesus rak endahnútinn á flotta sókn. Arsenal-menn spiluðu sig í gegnum vörn gestanna og endaði það með að Leandro Trossard átti góða fyrirgjöf sem Jesus kláraði með góðu skoti.

Gestirnir héldu þó áfram að reyna og fengu fínt færi á 64. mínútu þegar Brenden Aaronson komst í gegn og reyndi að vippa yfir Ramsdale en Englendingurinn varði vel.

Þeim tókst þó að skora á 76. mínútu leiksins. Það var danski varnarmaðurinn Rasmus Kristensen sem átti gott skot fyrir utan teig. Boltinn fór af Oleksandr Zinchenko og framhjá Ramsdale í markinu. 3:1 og smá von fyrir gestina.

Sú von lifði ekki lengi en á 84. mínútu skoraði Granit Xhaka fallegt skallamark eftir sendingu frá fyrirliðanum Martin Ödegaard, 4:1. Leikurinn fjaraði síðan út og sanngjarn sigur heimamanna staðreynd.

Arsenal 4:1 Leeds opna loka
90. mín. Patrick Bamford (Leeds) fær gult spjald Traðkar ofan á ristinni á Jorginho.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert