„Ef einhverjir vilja fara þá keyri ég þá sjálfur í burtu“

Jurgen Klopp segist ekki vilja hafa menn sem vilja ekki …
Jurgen Klopp segist ekki vilja hafa menn sem vilja ekki vera hjá félaginu. AFP/Ben Stansall

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að Mohamed Salah sé ekki óánægður hjá félaginu og að hann myndi sjálfur fylgja þeim leikmönnum sem vilja fara frá félaginu í burtu.

Liverpool mistókst að komast í Meistaradeildina fyrir næsta tímabil og hefur Klopp ýjað að því að ef einhverjir leikmenn séu ósáttir við það þá sé þeim frjálst að fara frá félaginu.

Mohamed Salah deildi færslu á samfélagsmiðlinum Instagram á dögunum þar sem hann bað stuðningsmenn Liverpool afsökunar á frammistöðu liðsins á tímabilinu. Salah skrifaði:

„Ég er miður mín, við höfum brugðist ykkur. Við höfðum allt sem við þurftum í liðinu til að komast í Meistaradeildina en okkur mistókst. Við erum Liverpool og það að komast í Meistaradeildina er lágmarkskrafa. Mér þykir þetta leitt en það er of snemmt fyrir hvetjandi og bjartsýnis færslu. Við brugðumst ykkur og okkur sjálfum.“

Jurgen Klopp trúir því að Salah hafi sýnt í verki að hann vilji vera áfram hjá félaginu og að þessi færsla sýni að Salah hafi áhuga á að vera áfram hjá félaginu og ná betri árangri á næsta tímabili.

„Salah elskar að vera hérna og hann var aðeins að biðjast afsökunar á slæmu gengi liðsins. Ef að leikmaður kemur til mín og segist vilja fara af því að liðið komst ekki í Meistaradeildina  þá myndi ég spyrja hann hvert hann vildi fara og keyra hann síðan sjálfur þangað.“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert