Sögulegar breytingar á treyju United

Leikmenn United fagna eftir síðasta heimaleik tímabilsins.
Leikmenn United fagna eftir síðasta heimaleik tímabilsins. AFP/Paul Ellis

Forráðamenn enska knattspyrnufélagisns Manchester United ætla að ráðast í stórvægilegar breytingar á búningi félagsins, ásamt búningaframleiðandanum Adidas, fyrir næsta keppnistímabil.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en á þriðja búningi félagsins verður einungis mynd af rauða djöflinum fræga, en orðin Manchester United verða fjarlægð.

Verður þetta í fyrsta sinn frá árinu 1970 sem það stendur ekki Manchester United á treyjunni. Árið 1998 voru orðin Football Club fjarlægð af búningum félagsins og voru síðast gerðar breytingar á treyjunni það ár.

Adidas fór svipaða leið á varatreyju Arsenal á nýafstöðnu keppnistímabili þar sem orðið Arsenal var fjarlægt og eftir stóð fallbyssan fræga sem er einkennismerki félagsins.

mbl.is