Landsliðsmarkvörður til Brentford

Mark Flekken í leik með Freiburg gegn RB Leipizg fyrr …
Mark Flekken í leik með Freiburg gegn RB Leipizg fyrr í mánuðinum. AFP/Thomas Kienzle

Enska knattspyrnufélagið Brentford hefur fest kaup á hollenska markverðinum Mark Flekken, sem kemur frá þýska 1. deildarfélaginu Freiburg.

Flekken, sem er 29 ára, hefur þegar staðist læknisskoðun hjá Brentford og skrifað undir fjögurra ára samning.

Hann stóð sig afar vel með Freiburg á nýafstöðnu tímabili þar sem hann lék alla 34 deildarleiki liðsins og hélt marki sínu hreinu oftast allra, 13 sinnum, er Freiburg hafnaði í fimmta sæti.

Flekken, sem hefur leikið fjóra A-landsleiki fyrir Holland, vakti athygli fyrir fimm árum þegar hann lék með Duisburg í þýsku B-deildinni. Þá fékk Hollendingurinn á sig vægast skrautlegt mark í leik gegn Ingolstadt.

Brentford leikur í ensku úrvalsdeildinni þriðja árið í röð á næsta tímabili.

mbl.is