Lofa því að við verðum í deildinni á næsta tímabili

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP/Oli Scarff

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur verið útnefndur knattspyrnustjóri ársins af samtökum knattspyrnuþjálfara á Englandi.

Þjálfarar í öllum deildum ensku deildakeppninnar velja besta knattspyrnustjórann og hlýtur sigurvegarinn Sir Alex Ferguson-verðlaunagripinn, sem er nefndur eftir skosku goðsögninni.

Er þetta í þriðja sinn sem Guardiola vinnur til verðlaunanna, en það gerði hann einnig árin 2018 og 2021.

Undir stjórn Spánverjans varð Man. City Englandsmeistari þriðja árið í röð og eygir þrennuna þar sem liðið á fyrir höndum bikarúrslitaleik gegn Manchester United á laugardag og úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Inter Mílanó aðra helgi.

Er Guardiola tók við verðlaunagripnum sagði hann: „Það er ótrúlegur heiður að fá þennan bikar. Við erum í bestu deild heims og ég lofa ykkur því að við verðum í henni á næsta tímabili.“

Var Guardiola þar eflaust að vísa til þess að enska úrvalsdeildin kærði félagið fyrir alls 115 meint brot gegn reglum deildarinnar í febrúar síðastliðnum.

Gætu staðið frammi fyrir þungum refsingum

Meint brot snúa allflest að fjár­hags­stöðu Man. City þar sem fé­lag­inu er gefið að sök að hafa ýkt tekj­ur sín­ar, sér í lagi frá styrkt­araðilum, í bók­haldi þess mörg und­an­far­in ár.

Einnig snúa þau að tengd­um aðilum, til að mynda fyr­ir­tækj­um sem virðast ná­tengd eigendum Man. City frá Abú Dabí, og rekstr­ar­kostnaði fé­lags­ins.

Fari svo að Man. City verði fundið sekt um þessi brot getur liðið staðið frammi fyrir því að vera dæmt niður um deild eða deildir og að Englandsmeistaratitlar þess, að minnsta kosti nokkrir þeirra, verði teknir af þeim.

Virðist Guardiola þó ekki hafa miklar áhyggjur af því að allt fari á versta veg.

mbl.is