Allardyce ekki áfram með Leeds

Sam Allardyce.
Sam Allardyce. AFP/Oli Scarff

Sam Allardyce verður ekki áfram knattspyrnustjóri Leeds United. Hann tók við til bráðabirgða í síðasta mánuði en tókst ekki að bjarga liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni.

Leeds tilkynnti í gærkvöldi að félagið hafi rætt við Allardyce og niðurstaða viðræðna væri sú að hann héldi ekki áfram og að tilkynnt yrði um nýjan knattspyrnustjóra á næstu vikum.

Allardyce tók við Leeds fyrir mánuði síðan þegar einungis fjórar umferðir voru óleiknar í úrvalsdeildinni.

Tókst liðinu ekki að vinna neinn af þeim fjórum leikjum sem eftir voru, hafnaði að lokum í 19. sæti og leikur því í ensku B-deildinni á næsta tímabili.

mbl.is