Liverpool í viðræðum við tvo aðra miðjumenn

Khéphren Thuram lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Hollandi í mars …
Khéphren Thuram lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Hollandi í mars á þessu ári. AFP/Francois Nascimbeni

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa átt í viðræðum við miðjumennina Manu Koné og Khéphren Thuram undanfarna daga.

Það er ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu en Liverpool er við það að ganga frá kaupunum á argentínska miðjumanninum Alexis Mac Allister frá Brighton.

Bæði Koné og Thuram eru 22 ára gamlir franskir miðjumenn en Koné er samningsbundinn Borussia Mönchengladbach í Þýskalandi á meðan Koné er samningsbundinn Lille í Frakklandi.

Þeir hafa báðir verið fastamenn í yngri landsliðum Frakklands og þá lék Thuram sinn fyrsta A-landsleik í mars á þessu ári gegn Hollandi.

Liverpool ætlar sér stóra hluti á leikmannamarkaðnum í sumar eftir vonbrigðatímabil þar sem liðinu mistókst að tryggja sér Meistaradeildarsæti á komandi keppnistímabili.

mbl.is