Önnur stórstjarna United sökuð um heimilisofbeldi

Antony er sakaður um heimilisofbeldi.
Antony er sakaður um heimilisofbeldi. AFP/Darren Staples

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Antony, leikmaður Manchester United, hefur verið sakaður um heimilisofbeldi af fyrrverandi kærustu sinni í Brasilíu. 

Brasilíski fjölmiðilinn Globo Esporte greinir frá því að Gabriela Cavallin, sem var í sambandi með Antony árið 2022, hafi lagt fram lögregluskýrslu í Sao Paulo. 

Í skýrslunni kemur fram að hún hafi orðið fyrir árás af Antony þann 20. maí síðastliðinn, sama dag og Antony lék fyrir Manchester United gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni. 

Skýrslan inniheldur einnig myndir af „ógnandi skilaboðum“ og er Cavallin sögð hafa rætt fyrri árásgjarna hegðun frá knattspyrnumanninum. Hún skorar nú á yfirvöld í Brasilíu að taka viðeigandi ráðstafanir til að vernda hana á meðan frekari sönnunargögnum er safnað. 

Engar athugasemdir hafa verið gefnar út frá Antony, fulltrúum hans né Manchester United að svo stöddu. 

Þetta er önnur stjarna United sem er sökuð um heimilsofbeldi á tiltölulega stuttum tíma en í byrjun árs 2022 var Englendingurinn Mason Greenwood einnig sakaður. 

mbl.is